Sveitarstjórn

8. fundur 01. október 2014

8. fundur sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 2014 -2018 haldinn í skrifstofu Svalbarðsstrandarhrepps, Svalbarðseyri, miðvikudaginn 1. október 2014 kl. 13:30.

 

Fundinn sátu: Eiríkur H. Hauksson, sveitarstjóri, Valtýr Þór Hreiðarsson, oddviti, Guðfinna Steingrímsdóttir, varaoddviti, Halldór Jóhannesson aðalmaður, Ólafur Rúnar Ólafsson, aðalmaður, Anna Karen Úlfarsdóttir, aðalmaður og Harpa Halldórsdóttir skrifstofustjóri.

 

 

Fundargerð ritaði: Harpa Halldórsdóttir

 

Dagskrá:

 

1. 1407029 Skipulags- og byggingarfulltrúaembætti Eyjafjarðar bs:

Eiríkur gerði grein fyrir fundi sem hann sat hjá Framkvæmdastjórn byggingarfulltrúaembættis Eyjafjarðar 23. september 2014. Jafnframt kynnti hann drög að samþykktum fyrir Skipulags- og byggingarfulltrúaembætti Eyjafjarðar bs. Oddviti bar upp tillögu þess efnis að hreppurinn verði aðili að samlaginu miðað við núverandi kostnaðarskipan. Samþykkt einróma.

 

2. 1407030 Bygging fjórbýlishúss við Laugartún.

Erindi frá Þorgils Jóhannessyni, dagsett 28. september 2014.

Erindi og frumdrög hafa borist frá Þorgils varðandi byggingu fjögurra íbúða húss við Laugartún 7. Verktakinn óskar eftir að ganga til samninga við sveitarfélagið um byggingu þessa húss. Fjármögnun og eignaraðild yrði á vegum sveitarfélagsins, öll hönnun og útfærsla yrði unnin í samvinnu og með það meginmarkmið í huga að byggja vandaðar, einfaldar og hagkvæmar íbúðir fyrir litlar fjölskyldur og einstaklinga.

Sveitarstjórn finnst hugmyndin áhugaverð og telur hana kalla á nánari könnun á húsnæðisþörf. Í framhaldi þarf að huga að byggingarkostnaði, fjármögnun og öðrum þáttum varðandi aðkomu hreppsins að hugsanlegum framkvæmdunum. Sveitarstjóra og Ólafi falið að ræða við Þorgils varðandi grunnhugmyndina og kanna jafnframt nánar ofangreind atriði.

 

3. 1407031 Frárennslismál.

Haraldur Ævarsson hefur bent á að skolpfrárennsli á Svalbarðseyri nái aðeins um 20 metra út í sjó með tilheyrandi mengun.

Hugmynd hefur komið fram um að tengja stóra rotþró við frárennslið og minnka þannig til muna að óæskilegur úrgangur fari beint út í sjó. Aðrar lausnir gætu hugsanlega komið til, svo sem að lengja rörið út í sjó.

Stjórnarmenn eru sammála um að við lausn þessa máls þurfi að horfa til langs tíma og m.a. taka tillit til framtíðar skipulags. Sveitarstjóra og formanni umhverfisnefndar er falið að skoða þessi mál nánar.

 

4. 1407032 Sorpmál.

Haraldur Ævarsson hefur óskað eftir að sorpmál sveitarfélagsins verði skoðuð nánar. Greining á kostnaði og innheimtu vegna sorpmála verði gerð og athugun á því hvort innheimta sé réttlát gagnvart mismunandi notendahópum. Jafnframt hefur verið bent á að opið gámasvæði hafi ákveðin vandamál í för með sér. Samanburður við önnur sveitarfélög er talinn til bóta við þessar kannanir. Sveitarstjórn telur að sorpmál hafi færst til betra horfs undanfarin ár, en áfram má bæta. Málinu er vísað til umhverfisnefndar til skoðunar.

 

5. 1407033 Aðalfundur Flokkunar Eyjafjörður ehf.

Í bréfi dags. 19. sept. boðar Ólöf Harpa Jósefsdóttir forstöðumaður

Flokkunar til aðalfundar þann 6. okt. næstkomandi.

Lagt til að veita formanni umhverfisnefndar umboð til að mæta á fundinn

en að Ólafur verði til vara. Samþykkt einróma.

 

6. 1407034 Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Í bréfi dags. 18. sept. er boðað til ársfundar þann 8. okt. næstkomandi.

Lagt fram til kynningar.

 

7. 1407035 Trúnaðarmál.

 

 

Fundi slitið kl. 16:40