Sveitarstjórn

45. fundur 28. apríl 2020

Fundargerð

45. fundur sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 2018-2022, haldinn í Valsárskóla, 28. apríl 2020 kl. 14:00.

Fundinn sátu: Gestur J. Jensson, Anna Karen Úlfarsdóttir, Guðfinna Steingrímsdóttir, Valtýr Þór Hreiðarsson, Ólafur Rúnar Ólafsson, Björg Erlingsdóttir, Fannar Freyr Magnússon og Vigfús Björnsson.

Fundargerð ritaði: Fannar Freyr Magnússon, Skrifstofustjóri.

 

Dagskrá:

1.

Sólheimar 11 - 1902018

 

Umsókn lóðareiganda að lóð nr. 11 við Sólheima um deiliskipulagsbreytingu var vísað í grenndarkynningu á 39. fundi sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps, 18.02.2020. Andmæli lögð fram

 

Andmæli bárust frá eftirtöldum aðilum:

Mekkatron ehf

Vilhjálmur Ragnarsson

Stefán Þengilsson

1. erindi Sendandi Ragnar Vilhjálmsson, Vilhjálmur Ragnarsson, Stefanía Arna Marínósdóttir f.h. Mekkatron ehf.

Sendandi vísar til þess að þegar lóðin var keypt var strangt til tekið að þetta ætti að vera róleg einbýlishúsabyggð og ekkert mætti byggja þar nema einbýli. Það liggi í hlutarins eðli að sumarhús í nágrenni sem þessu muni vera truflun á friði íbúa sem þar búa. Það hafi verið gert í blokkaríbúðum að setja inn orlofsíbúðir og ekki reynst vel þar sem það fer ekki saman að fólk sem er í fríi að skemmta sér með tilheyrandi hávaða sé innan um fólk sem er í vinnu eða að njóta friðar þess sem fæst að búa nánast í sveit.

2a. erindi Sendandi Vilhjálmur Ragnarsson
Sendandi vísar til þess að þegar lóðin var keypt hafi honum verið sagt að vera róleg einbýlishúsabyggð fyrir utan þéttbýli. Sendandi telur að svona atvinnustarfsemi eigi ekki heima þarna og óttast sendandi mikið ónæði af henni. Fólk að koma og fara á öllum tímum sólahrings með tilheyrandi látum.
Sendandi telur áformin skaða sína hagsmuni.

3a. erindi. Sendandi Stefán Þengilsson

Sendandi segist mótfallinn því að ferðaþjónusta sé starfrækt í hverfinu. Sendandi segist eiga í viðræðum við aðila um kaup á lóð nr. 6 sem hyggist bjóða í lóðina ef umræddu erindi er synjað en ekki ef erindið er samþykkt.

Svar við andmælum 1, 2a og 3a.

Í aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 kemur fram sú stefna að á íbúðarsvæðum megi gera ráð fyrir starfsemi sem ætla megi að hvorki valdi óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð(greinargerð kafli 4.4). Ætla má að gistiþjónusta af því tagi sem hér um ræðir sé í eðli sínu samskonar nýting lóðar og þegar viðgengst í götunni, þ.e. notendur húsnæðisins nýta það sem næturstað og dvelja að einhverju leyti í því að degi til. Því hljótast ekki af starfseminni önnur umhverfisáhrif en af þeirri íbúðarbyggð sem fyrir er í götunni. Sveitarstjórn áréttar að gestir húsnæðisins sem um ræðir skuli við notkun sína að sjálfsögðu hlíta reglugerð um hávaða 724/2008 eins og íbúar götunnar. Sveitarstjórn bendir á að við Sólheima sé eins og sakir standa gert ráð fyrir alls 17 íbúðarhúsum og telur að aukning á umferð sem hlýst af gistieiningunum tveimur sem

hér um ræðir sé hlutfallslega svo takmörkuð að hún geti með hliðsjón af fyrrgreindum skilmálum aðalskipulags ekki talist óeðlilega mikil. Sveitarstjórn bendir á að í sveitarfélaginu séu fjölmörg dæmi þess að gistiþjónusta hafi verið heimiluð á íbúðarsvæðum og telur ekki forsendur til annars en að það sama skuli gilda um Sólheima.
Ennfremur bætir sveitarstjórn við að umferð að lóðinni liggur ekki framhjá öðrum lóðum innar í götunni.
Samþykkt með öllum atkvæðum.

2b. erindi. Sendandi Vilhjálmur Ragnarsson

Sendandi spyr hvað verði þegar byggja á einbýlishúsið neðar í brekkunni og hvort það fari líka í útleigustarfsemi.

Sveitarstjórn er ekki kunnugt um áform lóðhafa varðandi nýtingu einbýlishússins. Sveitarstjórn telur athugasemd sendanda ekki gefa tilefni til breytinga á umræddum áformum. Samþykkt með öllum atkvæðum.

3b. erindi. Sendandi Stefán Þengilsson

Sendandi telur að viðbúið sé að ferðaþjónusta verði rekin um allt í hverfinu ef einn aðili innan hverfis byrjar á annað borð.

Sveitarstjórn bendir á að húseigendur í hverfinu megi óháð afgreiðslu umrædds erindis nýta húsnæði sitt í samræmi við skipulag, lög og reglugerðir. Gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins og reglugerð um gististaði veita þannig nokkuð svigrúm til starfrækslu gistiþjónustu í íbúðarhúsi og sér sveitarstjórn ekki forsendur til annars en að íbúar Sólheima eigi að geta nýtt sér það svigrúm í sama mæli og aðrir íbúar sveitarfélagsins. Sveitarstjórn telur athugasemd sendanda ekki gefa tilefni til breytinga á umræddum áformum. Samþykkt með öllum atkvæðum.

     

2.

Aðalfundur SBE 2020 - 2004009

 

Fundargerð aðalfundar lögð fram til kynningar. Verklagsreglur byggingarfulltrúa við afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi og stöðuleyfi voru samþykktar með fyrirvara um samþykki sveitarstjórna.

 

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps samþykkir eftirfarandi verklagsreglur byggingarfulltrúa við afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi og stöðuleyfi
1. gr.
Byggingarfulltrúi afgreiðir umsóknir um byggingarleyfi á sérstökum afgreiðslufundum, tvisvar sinnum í mánuði, fyrsta og þriðja föstudag í hverjum mánuði. Beri fyrsta eða þriðja föstudag uppá almennan frídag skal afgreiðslufundur haldinn annan virkan dag í mánuðinum, þegar best hentar hvað varðar málastöðu og tímalengd frá næsta fundi. Afgreiðslufundir geta fallið niður tvívegis yfir árið vegna leyfa byggingarfulltrúa.
2. gr.
Byggingarfulltrúi skal senda sveitarstjórnum hvers aðildarsveitarfélags lista yfir þær umsóknir, sem fyrirhugað er að afgreiða, tveimur dögum áður en afgreiðslufundur er haldinn.
3. gr.
Sveitarstjórn hvers aðildarsveitarfélags er heimilt að senda áheyrnarfulltrúa til að vera viðstaddan afgreiðslufundi. Sveitarstjórn skal tilnefna einn áheyrnarfulltrúa og annan til vara og tilkynna um hverjir það eru á aðalfundi hvers árs.
4. gr.
Byggingarfulltrúa ber að hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórn við meðferð umsóknar um byggingarleyfi ef vafi leikur á að umsóknin samræmist skipulagi.
5. gr.
Þegar byggingarfulltrúi hefur samþykkt að gefa út byggingarleyfi útbýr hann skriflegt bréf því til staðfestingar og sendir umsækjanda.
6. gr.
Byggingarfulltrúi annast veitingu stöðuleyfa og leyfi skal aðeins veitt að fenginni jákvæðri umsögn hlutaðeigandi sveitarstjórnar.
7. gr.
Byggingarfulltrúi hagar annars störfum sínum í samræmi við gildandi lög og reglur.

     

3.

Valsárhverfi 2. áfangi - 2004002

 

Valsárhverfi lóðaverð í Bakkatúni og aulýsing nýrra lóða og lausra lóða við Tjarnartún og Bakkatún.

 

Málinu frestað fram til næsta fundar.

     

4.

Samþykktir sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps - 2004007

 

Drög að samþykktum fyrir sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps lögð fram.

 

Farið var yfir drög að samþykktum fyrir sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps.
Málinu frestað til næsta fundar.

     

8.

Barnvænt samfélag - 2004012

 

Tekið fyrir með afbrigðum. Svalbarðsstrandarhreppur er eitt þeirra sjö sveitarfélaga sem býðst þátttaka í verkefninu Barnvænt sveitarfélag 2020

 

Lagt fram til kynningar.

     

9.

Fiskeldi við Eyjafjörð - 2004011

 

Tekið fyrir með afbrigðum. Bréf frá Halldóri Áskelssyni Laxeldi í Eyjafirði dagsettu 28.04.2020 lagt fram.

 

Sveitarstjórn tekur undir áhyggjur um uppbyggingu laxeldis í Eyjafirði sem fram koma í bréfi sendanda. Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps leggur ríka áherslu á að náttúru fjarðarins sé ekki ógnað. Sveitarstjóra og oddvita er falið að kanna afstöðu annarra sveitarfélaga til sjókvíaeldis í Eyjafirði.

     

5.

Markaðsstofa Norðurlands - 2002003

 

Fundargerðir stjórnarfunda Markaðsstofu Norðurlands, 06.04.2020 og 21.04.2020 lagðar fram til kynningar

 

Lagt fram til kynningar.

     

6.

Fundargerð stjórnar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar nr. 243 og 244 - 2004006

 

Fundargerðir Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar nr. 243 og nr. 244 lagðar fram til kynningar

 

Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

     

7.

Aðalfundur Norðurorku 2020 - 2004008

 

Fundargerð aðalfundar Norðurorku lögð fram til kynningar

 

Lagt framt til kynningar

     

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:30.

 

 

Gestur J. Jensson

Anna Karen Úlfarsdóttir

Guðfinna Steingrímsdóttir

Valtýr Þór Hreiðarsson

Ólafur Rúnar Ólafsson

Björg Erlingsdóttir

Fannar Freyr Magnússon