Umhverfis & Atvinnumálanefnd

2. fundur 02. nóvember 2010

Fundargerð:
2. fundur umhverfisnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn þriðjudaginn 2. nóvember 2010 kl. 17 í ráðhúsinu Svalbarðseyri.

Fundarmenn:
Helga Kvam, Þorgils Guðmundsson, Ragna Erlingsdóttir og Jón Hrói Finnsson.

Dagskrá:

1. Sorphirðumál í sveitarfélaginu.
Rætt um lausnir varðandi lífrænan úrgang og akstur með sorp á urðunarstað.
Jón Hrói reifaði hugmyndir um ílát fyrir lífrænan úrgang. Lífrænn úrgangur er mjög þungur og er settur á flestum heimilum í almenna ruslið. Mikill kostnaður er fyrir sveitrafélagið að flytja allt þetta rusl. Um áramót verður hætt að urða í Glerárdal og allt almennt rusl verður flutt með flutningabílum á nýjan urðunarstað að Sölvabakka á Skagaströnd. Fyrirhugað er að lífræni úrgangurinn fari í jarðgerðarstöðina Moltu ehf í Eyjafjarðarsveit en móttökugjald vegna lífræns heimilisúrgangs hefur hækkað mikið og því spurning að það borgi sig. Ýmsar lausnir ræddar t.d. að kaupa nýja tunnu fyrir lífræna úrganginn, setja lausa tunnu ofan í almennu tunnuna eða hafa safnkassa á efnislosunarsvæðinu og lífræna ruslinu frá íbúunum safnað í ker og moltað ca 4x á ári. Íbúar geta svo sótt sér moltu og nýtt aftur. Þetta lífræna rusl yrði tekið á tveggja vikna fresti frá íbúunum um leið og almenna ruslið. Jóni Hróa falið að kanna verð á lítilli tunnu fyrir lífrænt og heyra í verktaka.

2. Umhverfisvottun
Umhverfisvottuð Svalbarðsströnd, EcoCheck, Green Globe, Vistvernd í Verki, GAP (globalactionplan.com).
Helga lagði fram bæklinga um umhverfsvottað Ísland og taldi að sveitafélagið ætti að sækja um þessa vottun. Það ætti að vera auðvelt því það væri svo margt sem sveitafélagið væri nú þegar að gera sem styddi þessa umsókn. Nefndarmenn voru sammála um að skoða þetta vel og Jón Hrói tók að sér að athuga hvað þyrfti að gera og hvað fælist í verkefninu. Skoða þarf helstu kostnaðaliði.

3. Staðardagskrá 21 - staðan í dag
Sveitafélagið stendur nokkuð vel gagnvart þessu verkefni. Margt hefur áunnist en ýmislegt eftir. Úrgangsmál standa ágætlega og verkefni innan samgöngukaflans hafa flest verið unnin. Í útivistarkaflanum var rætt um hreinsun Svalbarðstjarnar en það hefur ekki verið gert enn. Helga vildi að þau mál yrðu skoðuð með vorinu. Í kaflanum um ásýnd sveitarfélagsins urðu umræður um Eyrina. Ekki hefur enn tekist að ná fram viðunandi árangri um fegrun staðarins.

4. Íbúafundir um Umhverfismál
Ákveðið er að hafa íbúafund um umhverfismál í janúar.

5. Utanvegaakstur í Vaðlaheiði – Staða
Rætt um utanvegaakstur í sveitarfélaginu. Í haust var hjólamaður sendur af Vaðlaheiðinni, var hann á hjóli við smalamennsku. Helga vill fá skylti við Geldingsárrétt og upp á toppi Vaðlaheiðar. Þessi skilti eiga að minna á að stranglega er bannað að vera á hjólum utanvega.

6. Til kynningar:

a) Environice og Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.
Gaman væri að fá kynningu á þessari þjónustu sem boðið upp á fyrir sveitarfélög.

b) Drög að landsáætlun um úrgang 2010 – 2022.
Bæklingur kynntur.

c) Upplýsingaefni Umhverfisstofnunar varðandi Umhverfismál.
Efni kynnt.

d) Umhverfisstefna þjóðkirkjunnar og Ljósaskrefið.
Fundarmenn lýstu ánægju sinni yfir að verkefnið Ljósaskrefið verði innleitt í Svalbarðssókn.

e) Ávalt á vegi, aðgerðaáætlun Umhverfisráðuneytissins.
Efni kynnt.

f) Dagur íslenskrar náttúru, 16. september.
Rætt var um að hvetja til einhverrar uppákomu í tilefni dagsins.

g) Dagur umhverfisins 25. apríl. (http://www.umhverfisraduneyti.is/dagurumhverfisins)
Leikskólabörn nýta þennan dag til hreinsunar, vonandi fleiri.

h) Hjólað í vinnuna 4-24. maí 2011.
(http://www.hjoladivinnuna.is/)
Ákveðið að hvetja fólk til að taka þátt í átakinu um að hjóla í vinnuna.

i) Evrópsk Samgönguvika.
(http://samgonguvika.is/)
Efni kynnt.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 19.40.