Umhverfis & Atvinnumálanefnd

5. fundur 03. maí 2012

Fundargerð

5. fundur umhverfisnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, fimmtudaginn 3. maí 2012 kl. 20:00.

Fundinn sátu: Helga Kvam formaður, Þorgils Guðmundsson varaformaður, Ragna Erlingsdóttir ritari og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1. 1105009 - Eyðing ágengra plantna í Svalbarðsstrandarhreppi
Rætt um skipulagningu aðgerða til að eyða njóla, kerfli og bjarnarkló í Svalbarðsstrandarhreppi sumarið 2012.
Í ár verður þeim íbúum sem þess óska lagt í té eitur til að eitra fyrir njóla. Eitrið hefur þegar verið keypt inn og íbúar geta vitjað þess á skrifstofu sveitarfélagsins. Umhverfisnefnd leggur til að eitrað verði tvívegis fyrir kerfli, í fyrsta skipti í maí, og stefnt að því að uppræta bjarnarkló í sveitarfélaginu í sumar áður en hún nær að dreifa sér fyrir alvöru.

2. 1110021 - Fegrun umhverfis í Svalbarðsstrandarhreppi
Rætt um aðgerðir til fegrunar umhverfisins í sveitarfélaginu.
Umhverfisnefnd leggur áherslu á að hafist verði handa við að laga til á Svalbarðseyrinni og á hreppslóðum og að fasteignaeigendur verði hvattir til að taka til í kringum hús sín. Komið verði fyrir blómakerjum (t.d. menningarborgarker frá BM-Vallá) og bekkjum á valda staði. Umhverfisnefnd leggur til að blómakerjum verði komið fyrir við syðri enda Laugartúns og Smáratúns og við afleggjarana að skólasvæðinu og kirkunni. Bekkjum mætti finna stað úti við Hamar, við vitann og hjá blómakerinu við kirkjuafleggjarann.

3. 1205002 - Umhverfisvika 2012
Rætt um skipulag umhverfidags eða umhverfisviku 2012.
Umhverfisnefnd leggur til að umhverfisdagur sveitarfélagsins verði haldinn 2. júní og að gámar og kerrur fyrir garðaúrgang verði staðsett á gámasvæðinu í Kotabyggð og í Laugartúni og Smáratúni frá 25. maí. Sent verði dreifibréf með upplýsingum um umhverfisátakið, eyðingu ágengra plantna og fleira tengt umhverfismálum í vikunni á undan.
Umhverfisnefnd leggur enn fremur til að tekin verði upp verðlaun fyrir fallegt og vel hirt umhverfi í hvatningarskyni.

4. 1106002 - Útboð í úrgangsmálum
Farið yfir stöðu mála og forsendur varðandi útboð í úrgangsmálum.
Vinna við útboðsgögn vegna sorphirðuútboðs hefur gengið hægar en til stóð. Umhverfisnefnd leggur til að útboðið verði einfaldað þannig að það nái aðeins til sorphirðu frá heimilum og að það verði auglýst um mánaðarmótin maí-júní.

5. 1204017 - Grisjun runna norðan leikskólalóðar
Í bréfi dagsettu 24. apríl 2012 óska Arney Ósk Arnardóttir, Lilja Rut Kristjánsdóttir, Matthildur Eir Valdimarsdóttir og Dýrleif Skjóldal, nemar og hópstjóri í krummahóp Leikskólans Álfaborgar, eftir heimild til að saga niður og grisja runnabeltið norðan og norðvestan við leikskólann og nýta efniviðinn í ýmis verkefni hópsins.
Umhverfisnefnd mælist til að sveitarstjórn verði við erindinu.

6. 1205005 - Matjurtagarðar
Umræður um möguleika á matjurtagörðum fyrir íbúa Svalbarðsstrandarhrepps og skólana.
Helga lagði til að fundið verði svæði þar sem hægt væri að bjóða upp á garða til matjurtaræktunar. Nokkrar umræður urðu um mögulega staðsetningu. Umhverfisnefnd bendir til dæmis á svæðið norðan við leikskólalóðina.

7. 1205003 - Stefnumótun í umhverfismálum
Umræður um stefnumótun í umhverfismálum.
Nefndarmenn sammæltust um að vinna í sameiningu að tillögu að umhverfisstefnu fyrir næsta fund.

8. 1205004 - Staðardagskrá 21
Farið yfir stöðu verkefna umhverfisnefndar samkvæmt Staðardagskrá 21.
Fara þarf yfir þau markmið og verkefni sem sett eru fram í Staðardagskrá 21 og uppfæra hana. Mörgum verkefnum er lokið eða þau komin í vinnslu.

9. 1105034 - Framkvæmdir við gámaplan og ramp
Sveitarstjóri fór yfir stöðu mála varðandi framkvæmdir við gámaplanið á Svalbarðseyri og næstu skref.
Sveitarstjóri sagði frá stöðu mála. Umhverfisnefnd leggur áherslu á að planið verði tekið í notkun sem fyrst.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 23:00.