Umhverfis & Atvinnumálanefnd

6. fundur 23. október 2012

Fundargerð

6. fundur umhverfisnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, þriðjudaginn 23. október 2012 kl. 17:00.

Fundinn sátu: Helga Kvam formaður, Þorgils Guðmundsson varaformaður, Ragna Erlingsdóttir ritari og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1. 1106002 - Útboð í úrgangsmálum
Lögð fram drög að útboðsgögnum vegna fyrirhugaðs útboðs í úrgangsmálum sveitarfélagsins.
Farið yfir gögnin. Málinu frestað til næsta fundar.

2. 1210008 - Aðgerðir gegn ágengum plöntutegundum
Svalbarðsstrandarhreppur hefur undanfarin ár eitrað fyrir skógarkerfli meðfram þjóðvegi 1 og víðar þar sem hann hefur stungið sér niður. Einnig hefur íbúum verið lagt til eitur til að berjast gegn útbreiðslu njóla.
Umhverfisnefnd leggur áherslu á að áfram verði haldið með átak gegn útbreiðslu kerfils. Nefndin leggur til að árið 2013 verði eitrað tvisvar og einnig eitrað fyrir njóla og bjarnarkló í landi sveitarfélagsins. Nefndin leggur til að leitað verði eftir samstarfi við Vegagerðina um aðgerðir gegn ágengum plöntum í veghelgunarsvæðum í sveitarfélaginu.

3. 1205005 - Matjurtagarðar
Umræður um matjurtagarða til afnota fyrir íbúa sveitarfélagsins, staðsetningu, stærð, fyrirkomulag úthlutunar o.þ.h.
Umhverfisnefnd ítrekar fyrri bókun um að gerð verði könnun meðal íbúa um eftirspurn eftir matjurtagörðum. Nefndin leggur til að garðarnir verði norðan sundlaugarinnar en ekki norðan Leikskólans Álfaborgar eins og áður hefur verið ákveðið.

4. 1205003 - Stefnumótun í umhverfismálum
Lagðar fram upplýsingar um umhverfisstefnur ýmissa sveitarfélaga.
Vinna hafin við mótun umhverfisstefnu. Vinnu verður haldið áfram á næsta fundi. Nefndarmenn kasta á milli sín hugmyndum í tölvupósti þangað til.

5. 1209030 - Stígagerð á Svalbarðseyri 2012-13
Vinnu við lagningu stígs frá Valsárskóla, meðfram Valsá og niður í fjöru er að mestu lokið. Eftir er að fínjafna jarðveginn í kring um stíginn og ganga frá honum. Það bíður vors. Umræður um frágang svæðisins og undirbúning.
Umhverfisnefnd leggur til að sett verði hlið á stígana hið fyrsta til að hindra að farið verði um þá á bílum. Nefndin leggur til að sjálfboðaliðahópur frá Seeds verði fenginn í að ganga frá umhverfi stíganna og laga kanta meðfram veginum út á Hamar.

6. 1210010 - Tiltekt í Svalbarðsstrandarhreppi
Rætt um þörfina fyrir almenna tiltekt í sveitarfélaginu og aðgerðir til að stemma stigu við ruslsöfnun.
Ákveðið að senda eigendum gáma án stöðuleyfis bréf um að þeir verði fjarlægðir og þeim bent á gámastæðin sem hægt er að leigja á gámasvæði sveitarfélagsins. Leitað verði samstarfs við heilbrigðiseftirlit vegna bílhræja og annars rusls sem geymt er á víðavangi.

7. 1209018 - Fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps 2013
Umræður um tillögur umhverfisnefndar að verkefnum komandi árs og áætlun kostnaðar vegna þeirra.
Nefndin leggur til að gert verði ráð fyrir eftirtöldum verkefnum við gerð fjárhagsáætlunar:
- Aðgerðir gegn ágengum plöntum
- Frágangur við stíga
- Matjurtagarðar
- Vor- og sumarblóm í blómakerin
- Samstarfs við Seeds
- Sumarstarfsmaður í umhverfismálum (til viðbótar við vinnuskóla)

8. 1210011 - Erindi frá útiskóla varðandi örnefni
Í erindi frá 22. október 2012 óska nemendur í útiskóla Leikskólans Álfaborgar og Valsárskóla eftir leyfi til að setja niður skilti með örnefnamerkingum í nágrenni skólanna í tengslum við námsverkefni þeirra. Einnig óska þeir eftir heimild til að nefna nýja stíginn meðfram Valsánni.
Umhverfisnefnd tekur vel í erindið og leggur til að útiskólanum verði heimilað að setja upp skilti með örnefnum. Nefndin leggur til að nemendur geri tillögur að nöfnum á stíginn meðfram Valsánni sem hægt væri að bera undir íbúa í íbúakönnun.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:30.