Umhverfis & Atvinnumálanefnd

8. fundur 01. apríl 2014

Fundargerð

8. fundur umhverfisnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, þriðjudaginn 1. apríl 2014 kl. 16:30.

Fundinn sátu: Helga Kvam formaður, Þorgils Guðmundsson varaformaður, Jakob Björnsson 1. varamaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1. 1403016 - Umhverfisátak 2014
Umræður um tímasetningu og tilhögun umhverfisátaks Svalbarðsstrandarhrepps 2014.
Ákveðið að árleg umhverfisvika sveitarfélagins verði frá 23. maí til 1. júní og þjóðvegarhreinsunin verði fimmtudaginn 29. maí (uppstigningardag) kl 10:00. Upplýsingar um umhverfisvikuna verða birtar í Ströndungi sem kemur út 20. maí. Gámar fyrir gróðurúrgang verða settir á gámasvæðið í Kotabyggð og í Heiðarbyggð og kerrum komið fyrir til frjálsra afnota fyrir íbúa í göturnar á Svalbarðseyri. Að venju verður boðið upp á söfnun brotamálma og stærri hluta í sveitinni. Sveitarstjóra falið að skoða hvort hægt sé að fá moltu og trjákurl á tippinn á Eyrinni. Umhverfisnefnd leggur til að útiskóla Álfaborgar og Valsárskóla verði boðið að setja blóm í blómakerin á Svalbarðseyri. Ákveðið að panta götusóp í upphafi umhverfisvikunnar og að láta íbúa vita svo þeir geti sópað stæði og gangstéttar áður en gatan er hreinsuð.
Ákveðið að senda eigendum fasteigna á Eyrinni á Svalbarðseyri bréf og hvetja þá til að taka til í kringum fasteignir sínar og fjarlægja rusl sem þar hefur safnast upp og jafnvel dytta að húsum sínum. Jafnframt verði eigendum óleyfisgáma sent bréf og farið fram á að þeir verði fjarlægðir.

2. 1403015 - Yfirtaka á sorphirðuþjónustu í Svalbarðsstrandarhreppi
Umræður um yfirtöku Íslenska Gámafélagsins á sorphirðu og förgun í Svalbarðsstrandarhreppi í kjölfar útboðs.
Jón Hrói fór yfir niðurstöður samtals við fulltrúa Íslenska Gámafélagsins um yfirtöku félagsins á sorphirðu og umsjón með gámasvæðum sveitarfélagsins. Stefnt er að dreifingu tunna í maí og kynningu fyrir íbúum aðra helgina í maí. Farið verður á hvert heimili í sveitarfélaginu.
Umhverfisnefnd leggur áherslu á að boðið verði upp á flokkun lífræns úrgangs sem fyrst. Umhverfisnefnd leggur til að sveitarfélagið leggi íbúum til maíspoka og að þjónustuaðilinn verði fenginn til að dreifa þeim með reglulegu millibili.
Umhverfisnefnd leggur jafnframt til að hafinn verði undirbúningur þess að gámasvæði verði girt af.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:30.