Umhverfis & Atvinnumálanefnd

20. fundur 24. júní 2021

Fundargerð

  1. 20. fundur umhverfisnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2018-2022, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, fimmtudaginn 24. júní 2021 16:00.

Fundinn sátu: Elísabet Ásgrímsdóttir, Harpa Barkardóttir, Eva Sandra Bentsdóttir og .

Fundargerð ritaði: Björg Erlingsdóttir, Sveitarstjóri.

 

Dagskrá:

1.

Umhverfisdagur 2021 - 2102005

 

Haldin var umhverfisvika 14.-22. maí. Farið yfir framkvæmd Umhverfisviku og helstu verkefni.

 

Farið yfir framkvæmd vikunnar. Umhverfisvikan gekk vel og íbúar tóku virkan þátt. Viðburðir voru vel sóttir og dagskráin fjölbreytt. Nefndin vill að áfram verði unnið að því að Umhverfisvika verði með fjölbreyttri dagskrá þar sem farið verður í leiðangra um fjöru og meðfram þjóðvegi, rusl tínt og boðið uppá áhugaverða fyrirlestra. Íbúar eru hvattir til þess að halda áfram að hugsa um nærumhverfi sitt og taka virkan þátt í umhverfisviku sem haldin verður að ári. Nefndin ákveður að í haust verði efnt til hreinsunardags þar sem horft verði til aflagðra og ónýtra girðinga. Elísabet og Harpa taka að sér skipulagnigu og kortleggja þau svæði sem um ræðir. Gert er ráð fyrir að byrjað verði á næsta nágrenni tjarna á Svalbarðseyri.

 

Samþykkt

 

   

2.

Vinnuskóli 2021 - 2102004

 

Farið yfir verkefni sumarsins

 

Vinnuskólinn fer vel af stað. Verið er að undirbúa námskeið fyrir nemendur vinnuskóla og gert ráð fyrir að nemendur í 9. bekk fari í sumarskóla á Grenivík, eina viku um miðjan júlí þar sem þau fræðast um sjávarútveg, fullvinnslu og nýtingu afurða í framleiðslu. Nemendum verður boðið uppá námskeið um næringu og ljósmyndun auk þess sem boðið verður uppá námskeið frá VÍS þar sem farið er yfir vinnuvernd og öryggi.
Ekki fékkst auka styrkur vegna ráðningar eldri starfsmanna en haldið verður áfram að sækja um til Vinnumálastofnunar. Gert er ráð fyrir að eldri nemendur fái starf í 5 vikur.

 

Samþykkt

 

   

3.

Landsáætlun í skógrækt - 2106006

 

Kynning á drögum að landsáætlun í skógrækt og umhverfismati hennar

 

Umhverfis- og atvinnumálanefnd Svalbarðsstrandarhrepps fagnar drögum að landsáætlun í skógrækt, 2021-2025. Nefndin leggur áherslu á að haft verði samráð við sveitarfélög og lýsir sig reiðubúna til samstarfs um skipulag skógræktar.

 

Samþykkt

 

   

4.

Landgræðsluáætlun 2021-2031 - 2106007

 

Landgræðsluáætlun 2021-2031 og umhverfismat áætlunarinnar lögð fram til kynningar

 

Umhverfis- og atvinnumálanefnd Svalbarðsstrandarhrepps fagnar því að sett er fram vönduð stefna á landsvísu um landgræðslu en vill þó benda á að skoða þurfi umsóknir um landgræðsluverkefni svæðisbundið þar sem aðstæður geta verið mismunandi og ólíkir hagsmunir kunni að vera fyrir hendi sem þurfi ávallt að vega og meta hverju sinni. Nefndin leggur áherslu á að haft verði samráð við sveitarfélög og lýsir sig reiðubúna til samstarfs um mótun landgræðsluáætlunar í Svalbarðsstrandarhreppi.

 

   

5.

AUTO ehf. Hreinsun svæðis - 2007002

 

Farið yfir stöðu hreinsunar á svæðinu

 

Fundur var haldinn með forsjármanni AUTO ehf í maí og gefinn frestur til að hreins svæðið vestan við húsið. Vegur var hreinsaður en síðan hefur lítið gerst og fyrirhugað að boða aðila til fundar með fulltrúa heilbrigðiseftirlits og sveitarstjóra. Gert er ráð fyrir að aðilar hittist í næstu viku. Nefndin leggur áherslu á að svæðið verði hreinsað og þeirri vinnu verði lokið fyrir haustið ellegar verði dómsúrskurður nýttur til að hreinsa svæðið. Lagt er til við sveitarstjórn að gert verði ráð fyrir fjármunum í það verkefni.

 

Samþykkt

 

   

7.

Umhverfisstefna - stefnumótun sveitarfélagsins í umhverfismálum - 1811011

 

Endurskoða á Umhverfisstefnu hreppsins árið 2021

 

Gert er ráð fyrir að umhverfisstefna verði endurskoðuð fyrir áramót og loftlagsstefna verði hluti af Umhverfisstefnu Svalbarðsstrandarhrepps.

 

Samþykkt

 

   

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:45.