Árið 2003 var stofnuð Tónlistardeild við Valsárskóla. Á haustdögum 2009 tók sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps þá ákvörðun að breyta Tónlistardeildinni í sjálfstæða rekstrareiningu, Tónlistarskóla Svalbarðsstrandar. Vorið 2016 var horfið aftur til fyrra skipulags og er Tónlistarskólinn nú deild við sameinaðan grunn- og leikskóla Svalbarðsstrandar.
Tónlistarskólinn er til húsa á neðri hæð í suðurenda grunnskólans, Valsárskóla. Skólaárið 2018-2019 eru 55 nemendur í tónlistadeild – 19 í hálfu námi og 18 í fullu námi. Einnig stunda nemendur 3. - 10. bekkjar nám í skapandi tónlistarmiðlun þar sem kenndar eru útsetningar og lagasmíðar í gegnum tölvur. Í forskóladeild eru 3 nemendur og 8 nemendur 1. bekkjar stunda nám í blokkflautu sem er skyldunám við tónlistadeildina. Kennt er á píanó/hljómborð, gítar, rafgítar, rafbassi, slagverk og söng/raddþjálfun. Í vetur er ekki boðið upp á kennslu á blásturshljóðfæri önnur en blokkflautu. Jafnhliða námi á hljóðfæri þurfa nemendur að stunda nám í bóklegum fræðigreinum tónlistar s.s. tónfræði og tónheyrn. Auk þess er lögð rík áhersla á ýmiskonar samspili og vinnu í tónveri. Elsta deild leikskólans nýtur forskólanáms við skólann, eina kennslustund á viku. Rétt til hljóðfæranáms í einkatímum í Tónlistarskólanum hafa allir grunn- og framhaldsskólanemar með lögheimili í sveitarfélaginu Svalbarðsstrandarhreppi. Innritun nýrra nemenda fer fram að hausti í upphafi skólaárs og staðfestingar nemenda frá einu skólaári til annars fara fram í aprílmánuði. Reynt er að veita öllum nemendum sem sækja nám við innritun inngöngu en það ræðst af nemendafjölda og framboði af hljóðfærum, getur því biðlisti myndast. Forgang í inntöku nýnema hafa grunnskólanemar yfir framhaldskólanema, og yngri nemendur grunnskóla yfir þá eldri. Breytingar á námstilhögun og/eða innritun nýrra nema getur einungis verið að hausti eða um annaskipti og ber að tilkynna slíkt skriflega með útfyllingu eyðublaðs sem aðgengilegt er á heimasíðu Tónlistarskólans. Breytingar og umsóknir eru ekki teknar gildar fyrr en eyðublað hefur verið fyllt út og sent.
Efni yfirfarið 29.11.20